Heimsmarkmiðin í Kópavogi

Kópavogsbær
16. ágúst 2019

Innleiðing Heimsmarkmiðanna í Kópavogi með nýrri heildstæðri stefnu sem samþykkt var af bæjarstjórn haustið 2018.

Heimsmarkmið sem tengjast verkefninu

Verkefnalýsing

Innleiðing stefnu Kópavogsbæjar felur í sér innleiðingu Heimsmarkmiðanna. Stefnan samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og 36 yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Frá samþykkt bæjarstjórnar hefur verið unnið að því að kynna nýju stefnuna og Heimsmarkmiðin fyrir starfsfólki Kópavogsbæjar auk þess að þróa næstu skref við innleiðinguna með bæjarstjórn og stýrihópi innleiðingar stefnunnar. Gerðar verða stefnur sviða og tengdar aðgerðaáætlanir þar sem sett verða mælanleg markmið, þau tengd mælikvörðum og gerð fjárhagsáætlunar. Liður í því að undirbúa innleiðingu hefur verið að finna mælikvarða og þróa upplýsingakerfið Nightingale svo hægt sé að fylgjast með framgangi innleiðingarinnar og árangri í starfsemi bæjarins. Þá tekur Kópavogsbær þátt í alþjóðlegu verkefni á vegum OECD um innleiðingu Heimsmarkmiðanna hjá sveitarfélögum og þróun mælikvarða og nýtur ráðgjafar þeirra við innleiðinguna. http://oe.cd/sdgs-impact

Markmið verkefnis

Markmiðið með nýrri heildstæðri stefnu Kópavogsbæjar er að tryggja lífsgæði íbúa Kópavogs og taka um leið þátt í átaki þjóða heims um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Horft er til aukinnar skilvirkni og árangurs með gerð stefnu fyrir hvert svið sem nær til þeirra málefna sem tengjast sviðinu og tengdra aðgerðaáætlana þar sem sett verða mælanleg markmið, þau tengd mælikvörðum og gerð fjárhagsáætlunar.

Hvenær er áætlað að markmiðinu verði náð?

Horft er til þess að innleiðingarferli nýrrar stefnu verði lokið í árslok 2024 , en unnið verði áfram að innleiðingu Heimsmarkmiðanna með árið 2030 sem yfirlýst viðmið Sameinuðu þjóðanna.

Mældur árangur

Árleg eftirfylgni innleiðingu stefna, aðgerðaáætlana og mælikvörðum þeim tengdum.

Framvinda verkefnis

Janúar 2023

Kópavogsbær birti á vef sínum fyrstu Sjálfbærniskýrslu Kópavogs vorið 2022 og er hún fyrsta sjálfbærniskýrsla hjá sveitarfélagi á Íslandi svo vitað sé. Skýrslan er gefin út samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative, GRI, sem eru alþjóðlega viðurkenndir staðlar um miðlun upplýsinga um samfélagslega ábyrgð sem notaðir eru í yfir 100 löndum.

Í skýrslunni er fjallað um umhverfi, efnahag, stjórnarhætti og samfélagsleg verkefni í sveitarfélaginu með áherslu á þau verkefni sem falla að markmiðum Kópavogsbæjar um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Innleiðing Heimsmarkmiðanna er hluti af viðamikilli stefnumótun sem átt hefur sér stað undanfarin ár hjá Kópavogsbæ og grunnur var lagður að í Bæjarstjórn Kópavogs með samþykkt heildarstefnu Kópavogsbæjar. Markmið Kópavogsbæjar er að tryggja þróun sjálfbærni í sveitarfélaginu og lífsgæði íbúa bæjarins til framtíðar.

Kópavogsbær naut leiðsagnar OECD við innleiðingu Heimsmarkmiðanna með þátttöku sinni í alþjóðlegu verkefni á þeirra vegum sem kallast „ A Territorial Approach to the Sustainable Development Goals“ og gaf OECD út skýrslu um Kópavog haustið 2020. Í frekari stefnuvinnu hafa yfirmarkmið bæjarins verið höfð að leiðarljósi en þau eru sótt úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Árið 2021 var ráðist í að móta stefnu um málefni allra fimm sviða bæjarins; menntasviðs, umhverfissviðs, velferðarsviðs, fjármálasviðs og stjórnsýslusviðs. Þá var einnig tekin upp stefnumiðuð fjárhagsáætlunargerð en í því felst að við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 voru stefnutengdar aðgerðaáætlanir sviða lagðar fram sem vinnuskjöl með mælanlegum markmiðum, mælingum og aðgerðum.  Bærinn nýtir sér upplýsingakerfi til að stuðla að árangursríkri innleiðingu stefna og aðgerðaáætlana sviða.

Kópavogur hefur hlotið viðurkenningu fyrir innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Barnvænt sveitarfélag.

Kópavogur hlaut alþjóðlega viðurkenningu Unicef fyrir Mælaborð barna á fyrstu alþjóðlegu ráðstefnu samtakanna sem haldin var í Köln haustið 2019.

Í lok árs 2022 hlutu fimm leikskólar í Kópavogi viðurkenningu fyrir að vera réttindaskólar Unicef og eru þeir fyrstir í heiminum til að hljóta þessa viðurkenningu.  Þrír grunnskólar hafa einnig hlotið viðurkenningu Unicef sem réttindaskólar. Fimm leikskólar og fjórir grunnskólar hafa nú þegar hafið innleiðingarferlið. 

Samræming sorphirðukerfis á höfuðborgarsvæðinu er framfaraskref sem mun skipta miklu máli í baráttunni gegn loftslagsvánni og fyrir innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi. Kópavogur er aðili að Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hefur því samþykkt að taka upp fjögurra tunnu kerfi sem þýðir að söfnun fer fram heim að dyrum fyrir pappírs- og pappaúrgang, plast, lífrænan úrgang og blandaðan úrgang við hvert heimili.

 

1. febrúar 2021

Kópavogur hefur undanfarin tvö ár tekið þátt í alþjóðlegu verkefni OECD um innleiðingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og þróun mælikvarða sem tengjast innleiðingunni. Í skýrslu OECD sem birt var í september 2020 kom fram að frammistaða Kópavogsbæjar var vel yfir meðaltali Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, hvað varðar stöðu innleiðingar margra Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í sveitarfélaginu.
Skýrsluna má finna hér.

Kópavogur hefur þróað upplýsingatæknikerfið Nightingale og komið sér upp gagnasafni sem samanstendur af mælaborðum og árangursmælikvörðum sem munu nýtast við stefnumarkandi ákvarðanatöku og ráðstöfun fjármuna, og gefa sýn á þróun á stöðu innleiðingar Heimsmarkmiðanna í Kópavogi. Þannig er innleiðing Kópavogs á Heimsmarkmiðunum gagnadrifin eins og bent er á í skýrslu OECD.

Ein mikilvægasta ráðlegging OECD til Kópavogsbæjar í ferlinu var nauðsyn þess að virkja hagsmunaaðila við innleiðingu Heimsmarkmiðanna. Með það að leiðarljósi voru rafrænar samráðsgáttir opnaðar fyrir starfsfólk og íbúa auk þess sem stór hluti starfsfólks Kópavogsbæjar fór í kortlagningarvinnu með Heimsmarkmiðin og sín daglegu störf.

Þá hefur Markaðsstofa Kópavogs sett af stað verkefni í samstarfi við Kópavogsbæ sem hvetur fyrirtæki í Kópavogi til að innleiða Heimsmarkmiðin í starfsemi sína og stofnað verður nýsköpunarsetur í samstarfi við Kópavogsbæ og fyrirtæki í Kópavogi.

Heimsmarkmiðin eru hluti af heildarstefnu bæjarins en markmið hennar er að tryggja lífsgæði íbúa Kópavogsbæjar og taka um leið þátt í átaki þjóða heims um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Mörg verkefni sem tengjast Heimsmarkmiðunum hafa litið dagsins ljós. 

Nefna má að Skólahljómsveit Kópavogs hélt sérstaka tónleika þar sem þemað var Heimsmarkmiðin og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, Salaskóli innleiddi Heimsmarkmiðin í skólanámsskrá sína árið 2019, og leik- og grunnskólar hafa verið í fararbroddi við að kynna Heimsmarkmiðin fyrir nemendum sínum og flétta þau inn í sitt starf. 

Menningarhúsin í Kópavogi hafa haft frumkvæði að alþjóðlegu samstarfsverkefni, Vatnsdropanum, þar sem meginstefið er að tengja saman boðskap og gildi Heimsmarkmiðanna við sígild skáldverk norrænna barnabókahöfundar.  

Unnið hefur verið að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ákveðið var að koma á fót Lýðheilsuhúsi/Geðræktarhúsi þar sem lögð verði áhersla á fræðslu og færniþjálfun er lýtur að andlegri vellíðan.

Heimsmarkmiðin voru höfð í fyrirrúmi við endurskoðun Aðalskipulags Kópavogs 2019-2031+, og ákveðið hefur verið að nýbygging Kársnesskóla verði vistvæn og Svansvottuð.

 

Staða verkefnis

Tengdir hlekkir

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira