Fráveitulausn við Mývatn og uppgræðsla

Fyrirtækja logo EFLA og Skútustaðahreppur
EFLA og Skútustaðahreppur
1. júlí 2019

Nýstárleg fráveitulausn við Mývatn þar sem svartvatn er aðskilið frá grávatni og næringarefni þess nýtt til uppgræðslu á Hólasandi.

Heimsmarkmið sem tengjast verkefninu

Verkefnalýsing

Miklar sveiflur hafa orðið í bakteríuflóru Mývatns en eitt af því sem hefur áhrif á ástand vatnsins og vistkerfið er fráveituvatn frá nærliggjandi byggð. Í reglugerð um verndun Mývatns og Laxár er þess krafist að skólp sé hreinsað með ítarlegri en tveggja þrepa hreinsun. Ákveðið var að fara í úrbótaaðgerðir á fráveitumálum við Mývatn sem ganga út á að aðskilja svartvatn (salernisskólp) frá grávatni (skólpi frá baði, þvottahúsi og eldhúsi), og endurnýta næringarefni í svartvatninu til að uppgræðslu á landgræðslusvæðinu Hólasandi. Verkefnið er unnið fyrir Skútustaðahrepp, í samstarfi við Landgræðsluna. Sveitarfélagið og rekstraraðilar munu skipta hefðbundnum vatnssalernum út fyrir vatnssparandi salerni sem nota 6-9 sinnum minna vatn en hefðbundin salerni. Einnig verður fjárfest í lokuðum tönkum til geymslu á salernisskólpi en grávatn verður hreinsað í núverandi rotþróm og siturbeðum innan lóðar hjá hverjum aðila. Áætlað er að byggja geymslutank á Hólasandi sem safnar svartvatninu sem nýtist sem áburður á sumrin á svæðinu. Þessi fráveitulausn er ný af nálinni á Íslandi en hefur verið notuð í nágrannalöndum okkar.

Markmið verkefnis

Ávinningurinn er bæði umhverfislegur og fjárhagslegur. Mikill umhverfislegur ávinningur er af þessari fráveitulausn sem gengur út á að vernda viðkvæmt lífríki Mývatns og nágrenni þess. Þá er vonast til þess að reynslan af endurnýtingu svartvatns til uppgræðslu komi til með að nýtast á fleiri stöðum á landinu. Stofn- og rekstrarkostnaður við þessa lausn er lægri heldur en við hefðbundna fráveitulausn þar sem hefði þurft að setja upp þriggja þrepa hreinsivirki.

Hvenær er áætlað að markmiðinu verði náð?

Markmið er að verkefnið klárist árið 2020.

Mældur árangur

Árangur af uppgræðslu verður mældur með því að meta gróðurþekju. Nýting næringarefna með því að mæla styrkleika næringarefna í jarðvatninu.

Tengdir hlekkir

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira