Græn skuldabréf Landsvirkjunar

Fyrirtækja logo Landsvirkjun
Landsvirkjun
1. júlí 2019

Í mars 2018 varð Landsvirkjun fyrsta íslenska fyrirtækið til að gefa út græn skuldabréf.

Heimsmarkmið sem tengjast verkefninu

Verkefnalýsing

Landsvirkjun gaf í mars 2018 út græn skuldabréf fyrir 200 milljónir Bandaríkjadala, fyrst íslenskra fyrirtækja. Skuldabréfin voru gefin út undir grænum skuldabréfaramma Landsvirkjunar og hefur andvirði þeirra verið ráðstafað til byggingar Þeistareykjastöðvar og Búrfellsstöðvar II. Báðar aflstöðvarnar vinna orku úr endurnýjanlegum og umhverfisvænum orkugjöfum. Skuldabréfaútgáfunni var mjög vel tekið og var eftirspurn sjöföld fjárhæðin sem lagt var upp með. Útgefandi grænna skuldabréfa fær lán frá fjárfestum þar sem þriðji aðili vottar að andvirði skuldabréfsins verði ráðstafað í verkefni sem hafa jákvæð umhverfisáhrif, svo sem til endurnýjanlegrar og sjálfbærrar orkuvinnslu. Í mars 2019 hlaut Landsvirkjun verðlaun fyrir að vera brautryðjandi á sviði grænna skuldabréfa (e. Green Bond Pioneer Award) á ráðstefnu Climate Bonds Initiative í London.

Markmið verkefnis

Verkefnið tengist þátttöku fyrirtækisins í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Auk þess að fjármagna byggingu Þeistareykjastöðvar og Búrfellsstöðvar II var markmið Landsvirkjunar að vekja athygli á og styðja við útgáfu grænna skuldabréfa á alþjóðavísu og veita fjárfestum tækifæri til að fjárfesta í grænni, endurnýjanlegri orku.

Hvenær er áætlað að markmiðinu verði náð?

Skuldabréfin hafa þegar verið gefin út og hefur andvirði þeirra verið ráðstafað til byggingar Þeistareykjastöðvar og Búrfellsstöðvar II.

Mældur árangur

Umhverfisáhrif verkefna sem fjármögnuð voru með grænum skuldabréfum eru metin árlega og upplýsingar um þau birtar á vefsíðu Landsvirkjunar.

Framvinda verkefnis

1. febrúar 2021

Í september 2020 tilkynnti Landsvirkjun um aðra útgáfu grænna skuldabréfa að fjárhæð 150 milljónir Bandaríkjadala. Bréfin eru gefin út undir uppfærðum grænum fjármögnunarramma Landsvirkjunar („Green Finance Framework“). Fjármunirnir verða nýttir til að fjármagna og endurfjármagna grænar eignir á efnahagsreikningi fyrirtækisins. Gjaldgengar eignir (e. eligible assets) eru nú allar eignir á efnahagsreikningi fyrirtækisins sem styðja við framleiðslu Landsvirkjunar á orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Það er ný nálgun í skilgreiningu á ráðstöfun fjármuna samkvæmt græna fjármögnunarrammanum. Þessi nýja nálgun hentar sérstaklega vel fyrirtækjum eins og Landsvirkjun, sem hafa umhverfisvæna aðalstarfsemi. 

Staða verkefnis

Tengdir hlekkir

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira