Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Eitt af meginstefum heimsmarkmiðanna er samvinna milli ólíkra hagsmunaaðila, þ.á m. ungmenna, við innleiðingu markmiðanna. Í ljósi þess, og einnig 12. og 13. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveða skýrt á um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif á málefni er þau varða, var árið 2018 ákveðið að virkja þátttöku ungmenna á Íslandi í gegnum barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Meginmarkmið ráðsins er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði meðal jafningja sem og samfélagsins í heild sinni. Ungmennaráðinu er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem heimsmarkmiðin og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Ungmennum er með þessum hætti gefinn vettvangur til að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun og skapa þannig jafningjum tækifæri til að láta rödd sína heyrast um fyrrgreind málefni.

Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna samanstendur af tólf fulltrúum, víðast hvar af landinu, á aldursbilinu 13-18 ára. Ráðið fundar reglulega í eigin persónu og í gegnum fjarfundabúnað. Þá fundar ungmennaráðið árlega með ríkisstjórn og á jafnframt fulltrúa í Sjálfbærniráði Íslands. Fyrir stofnun Sjálfbærniráðsins átti ráðið árheyrnarfulltrúa í verkefnastjórn stjórnvalda um heimsmarkmiðin.

Hlutverk ráðsins er að fræðast og fjalla um heimsmarkmiðin ásamt því að koma áherslumálum sínum á framfæri og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun. Það veitir jafnframt stjórnvöldum, bæði ríkisstjórn og Sjálfbæru Íslandi í gegnum Sjálfbærniráð, ráðgjöf við innleiðingu markmiðanna. Þá hefur ráðið verið eftirsótt til samráðs af hálfu fjölda ráðuneyta og opinberra stofnana í tengslum við stefnumótun og ýmiss konar viðburði.

Árið 2020 var starfsemi barna- og ungmennaráðsins færð frá Unicef á Íslandi yfir til embættis umboðsmanns barna. Þá var í fyrsta sinn árið 2022 kosið með lýðræðislegum hætti í ráðið á barnaþingi sem umboðsmaður barna boðar til og á ný árið 2023. Núverandi ráð hóf störf í byrjun 2024 og rennur skipunartími þess út að tveimur árum liðnum.

Síðasti fundur barna- og ungmennaráðsins með ríkisstjórn var 28. apríl 2023 þar sem þau kynntu níu tillögur á sviði umhverfis- og loftslagsmála, jafnréttis- og mannréttindamála og skóla- og menntamála. Þær tillögur voru jafnframt birtar í landsrýniskýrslu Íslands til Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin sumarið 2023. Þá hefur núverandi ráð átt fundi með einstaka ráðherrum.

Guðlaug Edda Hannesdóttir, sérfræðingur hjá embætti umboðsmanns barna, heldur utan um starfsemi ráðsins.
Hægt að fylgjast með störfum barna- og ungmennaráðsins á Facebook og Instagram.




Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira