15. Líf á landi

Vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu vistkerfa á landi, sjálfbærri stjórnun skógarauðlindarinnar, berjast gegn eyðimerkurmyndun, stöðva jarðvegseyðingu og endurheimta landgæði og sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni

Undirmarkmið:

15.1 Eigi síðar en árið 2020 verði vistkerfi á landi og í ferskvatni vernduð og stuðlað að sjálfbærri nýtingu þeirra og endurheimt, einkum skóga, votlendis, fjalllendis og þurrkasvæða, í samræmi við skuldbindingar samkvæmt alþjóðasamningum. 

15.2 Eigi síðar en árið 2020 hafi tekist að efla sjálfbærni skóga af öllu tagi, stöðva skógareyðingu, endurheimta hnignandi skóga og auka verulega nýskógrækt og endurrækta skóga um allan heim. 

15.3 Eigi síðar en árið 2030 verði barist gegn eyðimerkurmyndun, leitast við að endurheimta hnignandi land og jarðveg, þ.m.t. land sem er raskað af eyðimerkurmyndun, þurrkum og flóðum, og unnið að því að koma á jafnvægi milli hnignunar og endurheimtar lands í heiminum. 

15.4 Eigi síðar en árið 2030 verði vistkerfi í fjalllendi vernduð, meðal annars líffræðileg fjölbreytni þeirra, í því skyni að njóta ávinnings af nýtingu þeirra, sem er meginhugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. 

15.5 Gripið verði til brýnna og nauðsynlegra aðgerða til að sporna við hnignun náttúrulegra búsvæða og líffræðilegrar fjölbreytni. Eigi síðar en árið 2020 verði gripið til aðgerða til að vernda tegundir í bráðri hættu og koma í veg fyrir útrýmingu þeirra. 

15.6 Stuðlað verði að sanngjarnri og jafnri skiptingu ávinnings af nýtingu erfðaauðlinda og eðlilegum aðgangi að slíkum auðlindum samkvæmt alþjóðlegum samþykktum. 

15.7 Gripið verði til bráðaaðgerða til að binda enda á veiðiþjófnað og ólögleg viðskipti með vernduð dýr og plöntur og reistar skorður við eftirspurn og framboði á ólöglegum afurðum villtra dýra. 

15.8 Gripið verði til ráðstafana eigi síðar en árið 2020 til að koma í veg fyrir aðflutning ágengra, framandi tegunda og dregið verulega úr áhrifum þeirra á vistkerfi á landi og í vatni. Tegundunum efst á lista verði útrýmt eða útbreiðslu þeirra eða fjölgun stýrt. 

15.9 Eigi síðar en árið 2020 verði tekið tillit til gildis vistkerfis og líffræðilegrar fjölbreytni við gerð lands- og svæðisáætlana og í öllu þróunarferli, skýrslugerðum og aðgerðum til að draga úr fátækt.

15.a Kallað verði eftir fjármagni hvarvetna í því skyni að vernda líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi og nýta á sjálfbæran hátt. 

15.b Kallað verði eftir auknum úrræðum á öllum sviðum í því skyni að gera skógarauðlindir sjálfbærar og skapa hvata fyrir þróunarlöndin til að taka upp slíka stjórnun, meðal annars verndun og endurrækt. 

15.c Efldur verði stuðningur á heimsvísu til að berjast gegn veiðiþjófnaði og ólöglegum viðskiptum með vernduð dýr og plöntur, meðal annars verði leitað leiða fyrir íbúa hinna ýmsu byggðarlaga til að afla sér lífsviðurværis á sjálfbæran hátt. 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira