Barna- og ungmennaráð

 

Eitt af meginstefum heimsmarkmiðanna er samvinna milli ólíkra hagsmunaaðila, þ.á m. ungmenna, við innleiðingu markmiðanna. Í ljósi þess, og einnig 12. og 13. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveða skýrt á um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif á málefni er þau varða, var ákveðið að virkja þátttöku ungmenna á Íslandi í gegnum ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Er það í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að framfylgja skuli ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, m.a. um aukin áhrif barna í samfélaginu.  

Meginmarkmið ungmennaráðsins er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði meðal jafningja sem og samfélagsins í heild sinni. Ungmennaráðinu er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem heimsmarkmiðin og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Ungmennum er með þessum hætti gefinn vettvangur til að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun og skapa þannig jafningjum tækifæri til að láta rödd sína heyrast um fyrrgreind málefni. 

Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna samanstendur af tólf fulltrúum, frá öllum landshlutum, á aldursbilinu 13-18 ára. Ungmennaráðið kemur saman sex sinnum á ári og fundar þess á milli í gegnum fjarfundabúnað. Þá fundar ungmennaráðið árlega með ríkisstjórn og á jafnframt áheyrnarfulltrúa í verkefnastjórn stjórnvalda um heimsmarkmiðin. Hlutverk ráðsins er að fræðast og fjalla um heimsmarkmiðin ásamt því að koma sínum áherslumálum á framfæri og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun. Ungmennaráðið veitir jafnframt stjórnvöldum, í gegnum verkefnastjórn heimsmarkmiðanna, ráðgjöf við innleiðingu markmiðanna.

Hægt er að fylgjast með störfum ungmennaráðsins á Facebook síðu þess en fyrir nánari upplýsingar vinsamlegast hafið samband í gegnum ungmennarad[hja]barn.is.

Andrea Rói Sigurbjörns, sérfræðingur hjá Umboðsmanni barna á Íslandi, heldur utan um starfsemi ráðsins.

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira