Um vefinn

Á ríkisstjórnarfundi þann 26. júní 2018 samþykkti ríkisstjórn að opnuð yrði gátt á vef Stjórnarráðsins þar sem öllum er frjálst að koma áherslum, verkefnum og hugmyndum sínum tengdum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun á framfæri til verkefnastjórnar heimsmarkmiðanna. Innleiðing heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun er ekki einungis á hendi stjórnvalda, heldur mun þurfa samhent átak margra ólíkra hagsmunaaðila til þess að þau megi verða að veruleika.

Tilgangurinn með vef þessum er að tryggja gott samráð og upplýsingamiðlun milli stjórnvalda og hagsmunaaðila um markmiðin, þar á meðal fyrirtækja, félagasamtaka, sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum, nemenda og einstaklinga.

Verkefnastjórn leit til nokkurra erlendra fyrirmynda við þróun vefsins, til að mynda Finnlands, en þar hefur um árabil verið haldið úti gátt þar sem hátt í eitt þúsund aðilar, fyrirtæki, menntastofnanir, sveitarfélög, félagasamtök og aðrir, hafa skuldbundið sig til þess að vinna að framgangi heimsmarkmiðanna með því að senda inn verkefni. Hugmyndin er að hver sem er, sem með einhverjum hætti vinnur að framgangi heimsmarkmiðanna, geti komið verkefnum sínum á framfæri við verkefnastjórn og aðra í gegnum vefinn.

Innsend verkefni þurfa að uppfylla nokkur skilyrði. Verkefni skulu fela í sér ný, mælanleg markmið sem stuðla að sjálfbærri þróun og þar með framgangi heimsmarkmiðanna. Þá skal sett fram tímasett áætlun og tiltekið hvenær áætlað er að markmiðinu verði náð.  

Fyrir nánari upplýsingar um vefinn eða kynningarmál vinsamlegast hafið samband í gegnum [email protected]

Fyrir nánari upplýsingar um Sjálfbært Ísland samband við Eggert Benedikt Guðmundsson í gegnum [email protected]


Spurt og svarað:

Hver er tilgangurinn með vefnum?

Tilgangurinn með vefnum er að virkja samfélagið í heild sinni við innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og tryggja gott samráð og upplýsingamiðlun milli stjórnvalda og hagsmunaaðila um markmiðin. Á vefnum er því að finna verkefni stofnana, fyrirtækja, félagasamtaka, sveitarfélaga og jafnvel einstaklinga sem eiga það öll sameiginlegt að stuðla að framgangi heimsmarkmiðanna. Þannig skuldbinda þessir aðilar sig til þess að vinna að því að skapa betra og sjálfbærara samfélag fyrir okkur öll.

Hvers vegna ætti ég að setja inn mitt verkefni á þessa síðu?

Innsending verkefna í gáttina getur verið hvetjandi fyrir stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök, sveitarfélög og einstaklinga til að auka sjálfbærni í daglegri starfsemi. Þá getur innsending verkefnis verið góð leið til þess að vekja athygli á góðum verkefnum og kynna sig til leiks sem brautryðjandi á sviði sjálfbærrar þróunar. Gáttin getur einnig nýst til þess að leita sér innblásturs hjá sambærilegum aðilum og jafnvel til þess að finna mögulega samstarfsfélaga.

Má ég setja inn gamalt verkefni?

Ekki er heimilt að senda inn verkefni sem er lokið og ekki í vinnslu lengur. Hins vegar er heimilt að senda inn eldra verkefni sem er enn í vinnslu og felur í sér markmið sem enn hefur ekki verið náð.

Hvernig laga ég og breyti upplýsingum um verkefni sem ég hef sent inn?

Ekki er hægt að breyta verkefnasíðu eftir að verkefni hefur verið sent inn. Hægt er að hafa samband við ritstjórn vefsins með því að senda tölvupóst á [email protected].

Hvernig verður eftirfylgni með verkefnum háttað?

Gert er ráð fyrir að notendur skili greinargerð innan árs þar sem greint er frá stöðu verkefnis. Ritstjórn kemur til með að hafa samband við tengiliði og óska eftir upplýsingum.

Get ég nýtt vefinn til þess að finna mögulega samstarfsfélaga?

Ekki er hægt að eiga í samskiptum við aðra í gegnum vefinn. Hins vegar hafa erlend dæmi sýnt að vettvangur sem þessi verður oft tilefni til frekara samstarfs á milli aðila. Slíkt er þá sjálfsprottið og ánægjuleg viðbót við þau verkefni sem þegar eru í gangi.

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira